Félagið heitir Safnarinn – listaverkaklúbbur og er í umsjón Gallerís Foldar við Rauðarárstíg.
Félagið er byggt á erlendri fyrirmynd en slík félög eru starfrækt m.a. í Danmörku og Hollandi.
Mánaðarlegar greiðslur
Félagsmenn kaupa mánaðarlega inneign hjá Safnaranum að fjárhæð kr. 1.000,- og fær eitt félagsnúmer í staðinn.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að auka framlagið, t.d. kr. 2.000,- og eiga þá tvö félagsnúmer.
Félagsmenn geta hætt hvenær sem er, en fá þá inneign hjá Galleríi Fold og Innrammaranum. Ekki er hægt að fá endurgreitt þar sem fjármununum gæti þá þegar hafa verið ráðstafað til listaverkakaupa.
Hægt er að byrja hvenær sem er og það er hægt að greiða aftur í tímann til að auka möguleikana í vinningi í Úrvalspottinum.
Starfstímabil félagsins
Félagið starfar frá september til ágúst ár hvert. Nýtt tímabil hefst 1. september og lýkur á Menningarnótt Reykjavíkur í ágúst, ári seinna.
Listaverk fyrir inneign
Safnarinn notar innborgað fjármagn til að kaupa listaverk á uppboðum, sýningum eða með beinum samningum við listamenn.
Í lok tímabilsins fá allir þátttakendur val um að fá:
- eigulegt listaverk sem er að minnsta kosti virði þess sem greitt hefur verið.
- inneign að andvirði þess sem greitt hefur verið. Inneignin gildir í Gallerí Fold og Innrammaranum við Rauðarárstíg.
- geyma inneignina sem bætist þá við inneign næsta árs.
Sá sem greiðir tvöfalt mánaðargjald eða meira hefur að auki val um að fá dýrara listaverk sem nemur greiddri heildarupphæð eða fá fleiri verk sem eru að andvirði 12.000 kr. hvert.
Sá sem hefur greiðslur á seinni hluta tímabilsins og á innan við kr. 5.000,- í inneign fær ekki listaverk. Þess í stað getur viðkomandi kosið að halda inneigninni fram á næsta tímabil eða fengið inneignarnótu í Galleríi Fold eða Innarammaranum við Rauðarárstíg.
Úrvalspotturinn
Félagsmenn eiga möguleika á vinningum.
Einu sinni á ári eru nöfn hluta þátttakenda dregin út og fá þeir að velja verk úr Úrvalspottinum sem hefur að geyma mun dýrari verk.
Úrvalspotturinn er dreginn út í ágúst á hverju ári en allir félagsmenn eiga möguleika á vinningi. Því lengur sem viðkomandi hefur greitt til félagsins því meiri möguleika á viðkomandi. Þannig fer nafn þess sem hefur greitt í eitt ár tólf sinnum í pottinn en nafn þess sem hefur greiðslur í júní einungis tvisvar.
Sá sem greiðir hærra mánaðargjald, t.d. kr. 2.000,- tvöfaldar möguleika sína í Úrvalspottinum og á í raun tvöfaldan miða.
Þegar búið er að draga út er viðkomandi látinn vita með tölvupósti.
Þeir sem hljóta vinning fá aðgang að sérstakri síðu á heimasíðu félagsins þar sem þeir merkja við hvaða verk úr Úrvalspottinum þeir vilja helst eiga og hvaða verk þeim líkar næst best við og svo koll af kolli þar til öll verk hafa verið valin.
Sá sem er dreginn fyrst út hefur fyrsta valrétt og fær því það verk sem hann setur í fyrsta sæti. Sá sem á annan valrétt fær það verk sem hann hefur sett í fyrsta sæti hafi því ekki verið úthlutað þá þegar. Þannig heldur það áfram þar til allir hafa valið.
Listaverkakaup Safnarans
Verkin sem keypt eru verða sýnd á sérstakri sýningu á Menningarnótt Reykjavíkur í Galleríi Fold. Auk þess verða öll verkin til sýnis á vef Safnarans.
Félagsmenn njóta betri kjara hjá Galleríi Fold og Innrammaranum
- 10% afsláttur á listaverkum í almennri sölu
- 10% afsláttur af tilbúnum römmum hjá Innrammaranum
- 15% afsláttur af innrömmun
- 20% afsláttur af verðmatsþjónustu
- Félagsmönnum er boðið á sérstakar forsýningar.